eTwinning

eTwinning

Við í Brúarskóla við Dalbraut höfum verið í eTwinning samstarfi í haust (2012) við þrjá skóla í Evrópu.  eTwinning er aðaláætlun ESB á sviði rafræns skólasamstarfs og var hleypt af stokkunum 2005.  eTwinning snýst um einföld samstarfsverkefni á netinu milli evrópskra skóla og geta kennarar á fyrstu þremur skólastigum tekið þátt.  (Kennarar skrá sig sem einstaklinga og fá strax aðgang að eigin svæði þar sem þeir geta leitað samstarfsaðila. Skráning er einföld og fer fram á Evrópuvef eTwinning: etwinning.net).

Samstarfsaðilar

Samstarfsaðilar okkar eru skólar í Englandi og Finnlandi: Belmont-A specialist school, Chelsea community Hospital School og International School of Vantaa-Finland.  Samstarfsverkefnið (The Project) er vatn.

Verkefnið okkar

Við völdum að vinna með þjóðsögu þar sem vatn kæmi við sögu. Sagan af Marbendli varð fyrir valinu. Við byrjuðum á því að lesa söguna fyrir nemendur okkar, síðan endursagði einn kennari söguna og einfaldaði textann. Farið var vel í hugtök, staðhætti, sögusvið ofl. sem tengdist sögunni. Sagan var svo myndgerð í klippimyndastíl. Hver nemandi fékk a.m.k. eina persónu og/eða dýr til að hanna og klæða. Allir nemendur unnu saman að einni stórri  bakgrunnsmynd (2 metrar). Sögunni var síðan skipt niður í 13 búta og hver nemandi fékk einn til tvo búta til að lesa upp. Upplesturinn var hljóðritaður. Síðan var tekið upp á myndband þegar persónur/dýr sögunnar höfðu verið sett á réttan stað á stóru bakgrunnsmyndina.  Loks fengu nemendur að horfa og hlusta á afrakstur sinn.

Hér er hægt að sjá glærusýninguna sem nemendurnir gerðu.

Þetta myndverk verðu sent til samstarfskóla okkar í eTwinning. Nemendur þeirra og kennarar eiga að reyna að átta sig á um hvað sagan fjallar. En þau hafa myndirnar og upplesinn texta á íslensku til að styðjast við. Svo senda þau úrlausnir sínar til okkar. Sami háttur verður hafður á af þeirra hálfu, þau senda verkefni sem við eigum að vinna úr.

Árangur

Nemendur okkar voru áhugasamir og lögðu sig vel fram við að gera þetta vel. Þeim fannst spennandi að krakkar í öðrum löndum fengju að sjá og vinna með þeirra verkefni.  Nemendur okkar fengu einnig tækifæri til að kynna sig í gegnum Voki (www.voki.com).

Netfang