Skip to content

Velkomin á heimasíðu

Brúarskóla

Brúarskóli var stofnaður árið 2003 og er skóli fyrir börn sem eiga í alvarlegum geðrænum-, hegðunar eða félagslegum erfiðleikum. Brúarskóli er starfræktur á fimm starfstöðvum í Reykjavík, í Vesturhlíð, yngri og eldri deild í Brúarhúsum við Húsaskóla, á Dalbraut við BUGL og á Stuðlum.

Markmið Brúarskóla er vinna á jákvæðan hátt að því að bæta hegðun nemenda, kenna þeim nýja hegðun og hrósa fyrir allt það sem vel er gert. Styðja nemendur í því að finna sínar sterku hliðar og styrkja þær. Skólastarfið á að vera hvetjandi og uppbyggjandi. Tekið er mið af þörfum nemenda og af því hvað er honum fyrir bestu.

Hlutverk

Brúarskóli er grunnskóli rekinn af Reykjavíkurborg fyrir nemendur í á grunnskólastigi:

  • Með alvarlegan geðrænan og tilfinningalegan vanda.
  • Sem eiga í félags- og hegðunarerfiðleikum.
  • Sem eru komnir í vanda vegna fíkniefnaneyslu og/eða afbrota.

Starfsemi Brúarskóla skiptist í:

  • Kennslusvið:
    • Kennsla í Vesturhlíð (5. - 10. bekkur, skipt í miðstig og unglingastig)
    • Kennsla í Brúarhúsum, Dalhúsum 41 (3.-7. bekkur, skipt í yngri og eldri deild)
    • Kennsla við Barna- og unglingageðdeild (1. -10. bekkur)
    • Kennsla á Stuðlum (8. - 10. bekkur)
  • Stoðþjónusta:
    • Stuðningur við innra starf Brúarskóla
    • Ráðgjöf og fræðsla fyrir almenna grunnskóla

Markmið

Markmið skólans er að gera nemendur hæfari til að stunda nám í almennum grunnskóla. Megináhersla er lögð á að veita nemendum kennslu út frá áhuga og getu hvers og eins og að styrkja og bæta félags- og samskiptahæfni. Kennt er í litlum námshópum og kennslan er einstaklingsmiðuð.

  • Brúarskóli er tímabundið úrræði fyrir nemendur.
  • Mikilvægt er að allir þeir aðilar sem að málum nemandans koma s.s. foreldrar, heimaskóli, barnavernd o.fl. starfi náið saman á meðan nemandi er í Brúarskóla og á meðan á eftirfylgd stendur.
  • Í Vesturhlíð og Brúarhúsum fer stöðumat fram að loknum 3-4 mánuðum. Til fundarins eru boðaðir fulltrúar heimaskóla og foreldrar. Fundinn sitja auk þess skólastjórnendur, fulltrúi ráðgjafadeildar og umsjónarkennari ásamt fulltrúum þeirra þjónustukerfa sem tengjast fjölskyldunni. Stefnt skal að aðlögun í heimaskóla í kjölfarið og gerð áætlun um hvernig skuli staðið að ráðgjöf og eftirfylgd af hálfu Brúarskóla.

Aðferðir

Brúarskóli er fyrir nemendur sem eru með slaka samskiptafærni og eru það illa staddir félagslega og hegðunarlega að þeir eiga erfitt með að vera í almennum skóla án mikils stuðnings. Brúarskóli hefur mörg tæki til að aðstoða nemendur, t.d.

  • ART og KVAN þar sem unnið er með félagsfærni og samskipti
  • Vinna með hegðun, ábyrgð á hegðun, nota lausnamiðaða nálgun við erfiða hegðun með hvatningu og hrósi
  • Óæskileg hegðun stoppuð
  • Líkamlegt inngrip í neyð
  • Byggja upp jákvæðni gagnvart skólaumhverfi
  • Styrkja hvern einstakling á jákvæðan hátt út frá þroskastöðu hvers og eins
  • Leggja mat á raunverulega námsstöðu - vinnuáætlun
  • Skipulagt umhverfi
  • Allir eiga að vera öruggir
  • Uppbygginarstefna
    • Jákvæðar hliðar
    • Læra að ná stjórn á eigin hegðun
    • Læra að taka ábyrgð á eigin hegðun
  • Skipulögð kennsla:
    • Íslenska, stærðfræði, enska og samfélgasfræðigreinar
    • Verk- og listgreinar
    • Útivist og fjölbreytt hreyfing

Daglegt starf

Brúarhús og Vesturhlíð

Skólastarf í Brúarhúsum og Vesturhlíð er með hefðbundnu sniði og fylgir almennu skóladagatali. Nemendur stunda nám sitt í fámennum hópum og áhersla er lögð á jákvæða styrkingu, bætta hegðun, bóklegar og verklegar greinar auk hreyfingar og útivistar.

Dalbraut og Stuðlar

Sjúkrakennsla er á Dalbraut og Stuðlum.

Inntaka/útskrift

Foreldrar sækja um skólavist í Brúarskóla í samvinnu við heimaskóla nemanda. Þegar umsókn er tekin fyrir er haldinn upplýsingafundur um umsóknina áður en hún er tekin fyrir af inntökuteymi skólans.

Eftir að nemandi hefur nám í Brúarskóla eru haldnir fundir á 3-4 mánaða fresti með foreldrum, heimaskóla og öðrum sem koma að málum barnsins. Þar er farið yfir hvernig hefur gengið og framhald skólavistar rætt.

Brúarskóli er tímabundið skólaúrræði. Þegar kemur að því að nemandi fari aftur í sinn heimaskóla er gerð áætlun um aðlögun hans og útskrift í samvinnu við heimaskóla.

Sjá nánar í reglum um innritun og útskrift

Nemendur

Í Brúarskóla eru að jafnaði um 50 nemendur á fimm starfstöðvum, en fjöldinn er breytilegur yfir skólaárið þar sem nemendur útskrifast og nýir nemendur koma inn. Í Brúarskóla við Vesturhlíð eru nemendur í 5.-10. bekk, í Brúarhúsum eru nemendur í 3.-7. bekk, úr hverfum austan megin í borginni.
Á Dalbraut og Stuðlum fá nemendur sem eru í innlögn á BUGL eða meðferð á Stuðlum sjúkrakennslu.

Kennsla

Kennslan er einstaklingsmiðuð í samræmi við námslega stöðu og getu hvers nemanda. Lögð er sérstök áhersla á list- og verkgreinar og er reynt að bjóða upp á eins fjölbreytt nám og hægt er til að koma til móts við styrkleika hvers og eins. Meginmarkmið kennslunnar er að styðja nemendur í námi þeirra í jákvæðu námsumhverfi og að efla félagslega færni og sjáfstraust nemenda.  Áætlun hvers nemanda er sér sniðin og tekur á hegðun, félagsfærni, bóklegu og verklegu námi.

Hrós og hvatning

Hrós er önnur grunnstoð Brúarskóla. Sjálfsmynd nemenda er oft veik þegar þeir hefja nám í Brúarskóla og því er mikið lagt upp úr að hrósa nemendum fyrir það sem vel er gert og styrkja jákvæðar hliðar þeirra.

Starfsfólk leggur áherslu á að hrósa markvisst og orða hrós þannig að ljóst sé fyrir hvað er verið að hrósa, s.s. "flott hjá þér að raða skónum þínum svona snyrtilega við vegginn".

Stoðþjónusta

Stoðþjónusta Brúarskóla veitir annars vegar stuðning við starfið innan Brúarskóla, og hins vegar ráðgjöf og fræðslu til almennra grunnskóla vegna hegðunarvanda nemenda.

Starfsmenn

Við Brúarskóla starfa um 50 starfsmenn, þar á meðal; stjórnendur, kennarar, sálfræðingur/hegðunarráðgjafi, ráðgjafaþroskaþjálfi, atferlisþjálfar, matráður, ritari, stuðningsfulltrúar, skólaliði, umjónarmaður.

Einkunnarorð

  • Einkunnarorð Brúarskóla eru:
    • Virðing
    • Jákvæðni
    • Ábyrgð

Ágrip af sögu Brúarskóla

  • Ágúst 2003 tekur skólinn til starfa fyrir 5. – 10. bekk.
    • Vesturhlíð: 25 nemendur í 5. -10. bekk.
    • Stuðlar: 8 nemendur á unglingastigi.
  • Janúar 2004 ráðgjafarsvið stofnað.
  • Ágúst 2004 Brúarskóli tekur við stjórn Dalbrautarskóla við BUGL: 14-16 nemendur í 1. -10. bekk.
  • Ágúst 2005 Brúarskóli tekur við kennslu á meðferðarheimilinu Háholti: 4 nemendur á ungl.st.
  • Ágúst 2009 kennsla í Bjarkarhlíð lögð niður og flutt í Brúarskóla í Vesturhlíð.
  • Ágúst 2009 Brúarsel stofnað í Kleifarseli.
  • Ágúst 2011 kennslu hætt á Háholti-Varmahlíðarskóli tekur við.
  • Ágúst 2011 úrræði ti lengri tíma fyrir 2-3 nemendur á einhverfurófi með mjög alvarlega hegðun.
  • Ágúst 2014 Brúarhús stofnað í Dalhúsum.
  • Haust 2018 Brúarsel flytur í Grafarholt.