Hvað leynist í ísnum?

Í ár hafa nemendur í Brúarskóla við Dalbraut unnið að verkefni um hlýnun jarðar. Nemendur eru í skólanum að meðaltali í 6 vikur í einu. Byrjað var á að horfa á Before the Flood eftir Leonardo de Caprio sem fjallar um hlýnun jarðar og hvaða áhrif hún hefur á lífríkið. Einnig skoðuðu nemendur bækur um efnið og leituðu upplýsinga á netinu.

Til að kveikja hugmyndir að næsta skrefi í verkefninu voru notaðar ljósmyndir af íssprungum en út frá þeim teiknuðu nemendur lífverur sem þeim fannst þeir sjá í ísnum.

Hvad byr i isnum 1Hvad byr i isnum 2

Myndirnar voru svo notaðar til að búa til spil eins og snapp, Svarta Pétur og kvartett.

Lítið er af efni um hlýnun jarðar á íslensku á Youtube. Því var ákveðið að búa til stop motion stuttmynd um hlýnun jarðar. Við gerð myndarinnar lærðu nemendur heilmikið um hvernig koma má í veg fyrir hlýnun jarðar og hversu mikilvægt það er að koma almennt vel fram við jörðina.

Meðal persóna í myndinni eru Guðni Th. Jóhannesson og Ævar vísindamaður. Nemendur við Brúarskóla buðu þeim að sjálfsögðu á frumsýningu myndarinnar en Guðni sá sér því miður ekki fært að mæta en Ævar kom og var mjög ánægður með myndina.

Þemavinnan er liður í Grænfána verkefni Brúarskóla við Dalbraut.

Netfang