Skip to content

Brúarskóli flaggar grænfánanum

Brúarskóli fékk á dögunum afhentan grænfána Landverndar og hefur unnið að því markmiði undanfarin tvö ár. Því var að sjálfsögðu fagnað með viðeigandi hætti og fáninn dreginn að húni með viðhöfn og lófataki.

Skólar á grænni grein (Eco-Schools) eru alþjóðlegt verkefni sem menntar milljónir nemenda í 67 löndum víðsvegar um heim í sjálfbærni og umhverfisvernd. Verkefnið byggir á lýðræðismenntun og getu til aðgerða.

Skólar á grænni grein fylgja sjö skrefa ferli sem efla vitund nemenda, kennara og annarra starfsmanna skólans um umhverfismál. Ef skólinn nær markmiðum sínum fær hann að flagga grænfánanum til tveggja ára og fæst sú viðurkenning endurnýjuð ef skólarnir halda áfram góðu starfi.

Verkefnið hefur víðtæk áhrif og taka skólar ábyrga afstöðu í málum sem snerta umhverfið. Með því að innleiða raunhæfar aðgerðir og vinna á markvissan hátt að sjálfbærni í skólanum sýnir reynslan að skólar geta sparað talsvert í rekstri.

Markmið Brúarskóla:

 1. Að gera Brúarskóla sem heild umhverfisvænan og efla til þátttöku í Grænfánaverkefni.

 2. Að efla samstarf milli allra deilda Brúarskóla og stofna lærdómssamfélag í gegnum vefsíðu

 3. Að fræða um nauðsyn þess að halda jafnvægi/sjálfbærni í okkur sjálfum, samfélagi og náttúrunni á skemmtilegan og skapandi hátt.

4. Að njóta útiveru á fjölbreytilegan hátt í gegnum leik og athafnir.

 5. Að halda áfram grænum skrefum í skólaumhverfinu, eins og að nota minna, endurnýta og endurvinna öll efni.

6. Að efla virðingu/ást fyrir öllum fyrirbærum náttúrunnar á jörðinni.

7. Að efla meðvitund um tengslin milli alls sem til er og hlutverk hverrar og einnar lífveru.